Sagan

JMJ hf.

Margir hefðu talið að vel væri séð fyrir fataþörf Akureyringa þegar þrjár nýjar fataverslanir höfðu verið settar á stofn á einu ári, til viðbótar við allar þær verslanir sem fyrir voru og seldu margs kyns klæðavörur og fataefni. Ekki voru þó allir sannfærðir um að markaðurinn væri mettaður og sumarið 1956 tók ný klæðaskeravinnustofa og fataverslun til starfa á Akureyri. Hún átti eftir að reynast lífseigust allra þeirra klæðaverslana sem starfræktar voru í bænum á þessum tíma og er hin eina þeirra sem enn er starfandi þegar þetta er ritað.

Laugardaginn 11. ágúst árið 1956 hittust fimm fjölskyldumeðlimir á Akureyri og þar var eftirfarandi fært til bókar:

Komu undirrituð saman á heimili Jónatans M. Jónatanssonar skósmíðameistara, Glerárgötu 6, í þeim tilgangi að ræða um stofnun hlutafélags; í þeim tilgangi að reka klæðskeravinnustofu í Strandgötu 7 á Akureyri. Allir fundarmenn voru sammála um að stofna félagið og var því valið heitið Jón M. Jónsson hf.[1]

Hlutafé í nýja félaginu var samtals eitt hundrað þúsund krónur og áttu Jón M. Jónsson og Hulda Jónatansdóttir, eiginkona hans, mikinn meirihluta þess, eða áttatíu og fimm þúsund krónur. Hulda var kosin stjórnarformaður nýja félagsins, Jón M. Jónsson og Jónatan M. Jónatansson meðstjórnendur en Guðný Jósefsdóttir og Sigurbjörg Magnúsdóttir skipuðu varastjórn.[2]

Að stofnfundinum loknum var nýja fyrirtækið stofnað og nefndist Fatagerð JMJ hf. Jón Marínó Jónsson klæðskerameistari var forstjóri þess og annar aðaleigandi. Hann var fæddur á Dalvík árið 1923, en ólst upp í Ólafsfirði uns hann fluttist með foreldrum sínum til Akureyrar fjórtán ára gamall. Hann lauk prófi í klæðskeraiðn frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1944 og stundaði síðan framhaldsnám í iðn sinni. Að því búnu settist hann að á Akureyri og tók árið 1949 að sér forstöðu Saumastofu Kaupfélags Verkamanna Akureyrar sem starfrækt var í húsum félagsins við Strandgötu.[3]

Eins og margir fleiri ungir menn vildi Jón verða eigin húsbóndi og því réðst hann ásamt fjölskyldu sinni og tengdafólki í stofnun fyrirtækisins, sem áður var frá sagt, sumarið 1956. Það var fyrst til húsa í litlu húsi sem stóð norðan við hús Kaup­félags Verkamanna Akureyrar í Strandgötunni. Þar rak Jón eigin saumastofu og saumaði einkum karlmannaföt eftir pöntun og til sölu á verkstæðinu. Starfsemin gekk vel, fötin frá JMJ voru vönduð og vinsæl og árið 1961 þótti Jóni tími til kominn að færa út kvíarnar. Þá flutti hann starfsemina í Glerárgötu 6 og opnaði karlmannafataverslun sem bar heitið Herradeild JMJ. Ári síðar festi hann ásamt Magnúsi bróður sínum kaup á Fatagerðinni Burkna í Reykjavík, flutti hana til Akureyrar og rak hana þar í tuttugu ár. Höfuðstöðvar fyrirtækisins voru í Glerárgötu 6, en það rak einnig útibú á Laugavegi 103 í Reykjavík um nokkurra ára skeið.[4]

Nokkru eftir að Jón M. Jónsson flutti fyrirtæki sitt í Glerárgötu 6, nánar tiltekið árið 1965, hóf Ragnar Sverrisson, tengdasonur hans, störf hjá honum. Hann tók síðan við rekstri fyrirtækisins eftir að Jón dró sig að mestu í hlé og rak það ásamt Guðnýju Jónsdóttur, eiginkonu sinni, til ársloka 2016. Árið 1969 flutti JMJ hf. aðsetur sitt í Gránufélagsgötu 4 og þar starfar það enn. Ragnar starfaði hjá fyrirtækinu í 51 ár en lét af störfum um áramótin 2016-2017. Sama gerði félagi hans, Sigþór Bjarnason, sem vann hjá JMJ hf. í 48 ár. Þegar þeir hurfu af vettvangi tóku börn Ragnars og Guðnýjar við rekstrinum.

Þegar þetta er ritað hefur JMJ hf. starfað samfellt í 61 ár og er með elstu verslunarfyrirtækjum á Akureyri. Það hefur jafnan notið vinsælda og á viðskiptavini í öllum landshlutum.

[1] Fundargerð stofnfundarins JMJ hf. ( í einkaeign).
[2] Sama heimild.
[3] Morgunblaðið 19. júní 2006.
[4] Morgunblaðið 19. júní 2006.